Tíu nýir félagar bættust í hóp Rótaractklúbbs Reykjavíkur eftir vel heppnaða kynningu 4. október sl. í Stúdentakjallara Háskóla Íslands.
Þangað mættu milli 15 og 20 manns, flestir úr háskólunum.
Þeir sem komu fram á kynningunni voru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, Gunnhildur Arnardóttir, forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur Miðborgar, Ásthildur Ómarsdóttir forseti Rótaractklúbbs Reykjavíkur og Víðar Kári Ólafsson, félagi í Rótaractklúbbi Reykjavíkur. Auk framsaga var efnt til skemmtilegra leikja, að hætti Rótaract, til að tengja fólk saman.
Að sögn Ásthildar Ómarsdóttur forseta Rótaractklúbbs Reykjavíkur er margt áhugavert á döfinni hjá Rótaract á Íslandi, nú þegar kominn er fjölmennari hópur til starfa.
Von sé á félögum úr Rótaractklúbbum víðsvegar úr Evrópu á vinnudaga 3.-5. nóvember þar sem deila eigi reynslu og þekkingu til nýrra félaga hér á landi og efla samkennd og vináttu þeirra í milli. Ásthildur segir mikilvægt fyrir ungan klúbb að geta speglað sig í reynslumeiri félögum sem geti bæði kennt og eflt íslenska félaga sína.
Rótaractklúbbar eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu ungs fólks sem hefur hug á að vera leiðtogar og vilja láta gott af sér leiða í sínum samfélögum og heiminum öllum. Rótarý og Rótaract starfa hlið við hlið í samfélögum um allan heim sjálfum sér og samfélögunum til heilla. Rótaract er fyrir fólk á aldrinum 18-30 ára sem vill fá reynslu í að taka þátt í alþjóðlegu starfi, mynda góð tengsl og vináttu við samferðamenn, þjóna samfélaginu og stuðla að velvild og friði í heiminum. Mikil áhersla er lögð á að þátttaka félaga eykur alþjóðlegan skilning og félagar fá tækifæri til að þroska sig sem leiðtogar framtíðarinnar.
Þeir sem hafa áhuga á að vita meira og jafnvel að ganga til liðs við hreyfinguna geta nálgast
upplýsingar https://www.instagram.com/rotaractreykjavik/